Biskup sé maður fastheldinn við hið áreiðanlega orð.

Í trúarjátningu þjóðkirkjunnar er kristaltært að Guð er skapari himins og jarðar, að Jesús sé getinn af Heilögum Anda, fæddur af mey og muni koma til að dæma lifendur og dauða. Þetta er samkvæmt hinu áreiðanlega orði sem aldrei fellur úr gildi. Þó í gegnum tíðina hafi ýmsir ismar og annarlegar stefnur risið gegn Kristinni trú og boðað þegnum ríkisins að enginn sé Guð hafa þeir fallið, en Orð Drottins staðið stöðugt. Menn og konur vilja breyta Ritnigunum að samfélaginu fremur enn að samfélagið breytist að Ritnigunni, þeir vilja fá syndir sínar viðurkenndar í stað þess að viðurkenna syndir sínar. Undir því stjórnarfari sem nú er á Íslandi er guðleysinu brautin rudd og jarðvegur fyrir illgresið til að festa rætur hér í samfélaginu, jafnvel krikjan er villt í afstöðu sinni á stöðu Jesú Krists og Heilagrar Ritningar.

Fyrrverandi biskupsritari og núverandi prestur, Baldur Kristjánsson og Sigríður Guðmarsdóttir sem bíður sig fram til biskups geta ekki talist hæf í embættum sínum né heiðarleg þegar þau játa trú sína í messu. Fyrrum ritari biskups skrifar " við erum of vel lesin til að trúa Biblíunni bókstaflega, að Guð hafi skapað heiminn á sex dögum, Heilagur Andi hafi eignast barn með Maríu mey og þeir sem ekki játast Kristi verði kastað í eldinn. " Sigríður tekur í sama falska streng og lastmælir grundvelli Kristinnar trúar.

Að Guð sé ekki skaparinn, að heilagur getnaður sé skáldskapur, að Jesús sé ekki af meyju fæddur og Hann dæmi ekki með réttlæti er alger afneitun á grundvallar kenningu Kristinnar trúar. Orð Ritningarinnar eru fótum troðin og von hins kristna manns um eilíft líf að engu gerð. Þá er boðskapur jólanna fánýtur, söngur um signaða mær sem ól Guðs son ekkert nema tómir tónar og við aumkunnarverðastir allra manna. Guð hjálpi okkur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Óskar. Ég sé að þú telur trúarjátninguna vera "hið áreiðanlega orð" sem menn verða að kaupa í heild ef þeir eiga að teljast kristnir. Trúarjátningin sem þú vísar til er sú níkeanska sem er auðvitað mannagjörningur og á sér heldur skrautlega sögu.

Ég var að enda við að lesa ágætis fræðibók um klofning kirkjunnar á 4. öld og ágreininginn sem leiddi af sér trúarjátninguna níkeönsku sem samþykkt var á kirkjuþinginu í Níkeu 325. það var ekki án átaka að menn komu sér saman um textann og fyrstu viðbrögð voru reyndar þau að næstu 70 árin eða svo hafnaði meirihluti kristinna kirkna trúarjátningunni níkeönsku!

Kirkjan var klofin í tvær megin deildir, Arianista og það sem við gætum kallað kaþólska. Aríanistar voru í talsverðum meirihluta og nutu stuðnings margra keisara á 4. öld. Aríanisminn var einráður meðal germönsku þjóðanna sem kristnuðust frá Gotum (t.d. voru Vandalar, Langbarðar, Vísigotar og Austgotar kristnir upp á aríanisma og héldu fast við hann í margar aldir). Aríanismi var í miklum meirihluta meðal flestra austrænna kirkna, á hinu gríska málasvæði. Aríanistar voru því í góðum meirihluta meðal kristinna manna. Andstæðingar ("kaþólskir") voru í meirihluta á latneska málasvæðinu (Gallía, Ítalía) en voru einnig til staðar í minnihluta víða í austurkirkjunni, einkum í Alexandríu (þó varla í meirihluta þar).

Samkvæmt aríanisma var Kristur ekki Guð, heldur guðleg vera sköpuð af Guði í tilefni sonarfæðingar. Kristur er því hvorki maður né Guð, hann er n.k. undirguð eða hálfguð (frekar illa skilgreint). Maðurinn Jesú fæddist eins og aðrir menn en var ættleiddur (við skírnina) og gerður að Kristi (eða Kristur tekur sér bólfestu í honum samkvæmt sumum Aríanistum, en það jaðraði við Dósetisma sem var "gamall" klofningur frá 2. og 3. öld og kirkjan hafði úthýst sem trúvillu). Hlutverk hins kristna er að leitast eftir að eftirlifa Jesú, gera eins og Jesú gerði, og þannig geti menn hlotið náð fyrir Drottni og öðlast eilíft líf. Aríanismi skipti sér nánast ekkert að hinum heilaga anda, þríeining Guðs var óþekkt hugtak og meðal þeirra. Nánast allir kirkjufeður 4. aldar voru Aríanistar, meðal annars Júsebíus kirkjufaðir sem var helsti sagnfræðingur kirkjunnar.

Kaþólska staðan var sú að Aríanismi væri brot gegn eingyðistrú, Kristur (og hinn heilagi andi) yrðu að undir-guðum og í rökréttu framhaldi gætu aðrir heilagir menn í framtíðinn einnig orðið undir-guðir. Það fór einnig í taugarnar á kaþólskum að aríanistar höfðu miklu minni þörf fyrir kennivald kirkjunnar: Hver maður átti að fylgja líferni Krists skv. Aríanisma, en kaþólskan fór fram á trú og trúarsannfæringu sem einu leiðina að frelsun, fyrir tilstilli heilagrar kirkju.

Mótspil kaþólskra var að búa til hinn þríeina Guð (guðleg þrenning var reyndar gamalþekkt fyrirbæri frá því löngu fyrir kristni, Guð ásamt Lógos og Sófíu, þar sem Guð er æðstur, Lógos er "sonur" guðs, gerandinn í alheiminum, og Sófía er "andi" guðs, vitneskjan. Sem sagt heilög þrenning, en ekki þríeinn Guð). Hugmyndin um hinn þríeina Guð reyndist snjallræði, þótt það væri að vísu algjörlega óskiljanlegt flestu fólki. Gyðingar (og margir kristnir) bentu á að þríeinn Guð væri ekki Guð Gamla testamentisins, heldur einhver annar, óskyldur, Guð. Íslamskir hafa bent á það sama, þeirra afstaða er furðu lík aríanisma þar sem Múhammeð hefur bæst inn í röð heilagra manna, á eftir Jesú.

Eftir að Júlían trúvillingur reyndi að banna kristni um miðja 4. öld upphófst borgarastyrjöld sem endaði með því að keisarar af latneska málasvæðinu komust til valda, Valentínían mikli og síðar Þeódósíus mikli sem báðir voru and-aríaniskir, einkum þó sá síðarnefndi sem tókst að hreinsa austurkirkjuna að mestu af aríanískum biskupum undir lok 4. aldar. Kaþólskan varð sem sagt ofaná og endaði sem ríkjandi kenning innan kirkjunnar.

Kaþólikkar eru kallaðir svo vegna trúarjátningunnar, "ég trúi á heilaga almenna kirkju" en kaþólsk = almenn.

Trúarjátningin níkeanska er því pólítísk afleiðing valdadeilna innan kirkju 4. aldar og hefði trúlega aldrei orðið ofaná ef ekki hefðu komist til valda latnesk (gaulversk) keisaraætt. Þeodósíus sem endanlega gerði útslagið var einnig fyrst og fremst að hugsa pólítískt, hann vildi sameina Rómarríki (og tókst að verða síðasti einráði keisarinn), og meðal annars átti að ríkja trúarlegur einhugur. Þeódósíus var kaþólskur en hann var einnig mjög hrifinn af skipulagi kaþólsku kirkjunnar og efldi það mjög. Hann bannaði alla "heiðni" (fyrstur keisara) og beitti óhikað ofbeldi og jafnvel hervaldi gegn heiðnum og "trúvillingum". Með valdatöku hans hefjast vopnaðar ofsóknir kaþólskra gegn öllum villutrúm, einkum aríanistum en einnig gnostikerum sem voru fjölmennir þó trúlega í miklum minnihluta. Bein afleiðing þessara ofsókna var að klausturbúar við Nag Hammadi í efri Nílardal grófu gnostísk rit í krukku sem síðar fannst aftur 1945, einn mesti fornleifafundur síðustu aldar. (Reyndar telja sumir að krukkan hafi verið grafin nokkrum áratugum fyrr, hvort sem er þá var um viðbrögð við trúarofsóknum að ræða).

En allt í allt þykir mér heldur stórt til orða tekið að kalla trúarjátninguna "hið áreiðanlega orð".

Brynjólfur Þorvarðsson, 16.4.2012 kl. 07:50

2 Smámynd: Óskar Sigurðsson

Þakka þér Brynjólfur fyriir pistilinn, mjög góður.

Nei, trúarjátningin er sakvæmt hinu áreiðanlega orði hvað þessa þætti varðar sem ég skrifaði um. Þegar ég tala um " hið áreiðinlega orð " er ég að skýrskota til orða Páls Postula í Títusarbréfi, þar sem hann brýnir fyrir öldungum og Biskupum að vera fastheldnir við hið áreiðinlega orð þ.e. Orð Guðs. Ekkert annað Orð er eins áreiðanlegt, né varir eða stendur stöðugt, eins og þú bendir réttinlega á í pistli þínum. Atök um völd og stöður hefur og er mesti óvinur kirkjunnar og vegna þessa selja menn Sannleikann fyrir ranglætislaun. En Hann rís á ný. Kristnum mönnum greinir á um marga þætti trúrinnar, en grundvöllurinn er einn, Jesús er Kristur.

Ég er ekki lútherskur né kaþólskur en tel það varhugarvert þegar prestar kirkjunnar afneita grunvelli Kristninnar trúar og ásælast biskups embættið en eru ekki Orðsins fólk.

" heilaga almenna kirkju " er ekki samkvæmt hinu áreiðanlega orði.

Óskar Sigurðsson, 16.4.2012 kl. 22:18

3 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Óskar, þú segist ekki vera "lútherskur", er það þá rétt ályktað hjá mér að þú sért ekki skráður í ríkiskirkjuna?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 17.4.2012 kl. 15:10

4 Smámynd: Óskar Sigurðsson

Rétt Hjalti

Óskar Sigurðsson, 17.4.2012 kl. 21:53

5 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Þakka svarið Óskar. Ég skil þína afstöðu mjög vel en ég velti fyrir mér kannski hvaða orð nákvæmlega getur talist "hið áreiðanlega". Hugtakið "orð Guðs" nær væntanlega yfir mikinn fjölda orða og setninga.

Afstaða Páls var auðvitað augljós, eins og þín, Jesús er Kristur. Og hjá Páli er "kristur" ekki bara hinn veraldlegi messías af Davíðskyni sem gyðingar biðu eftir, heldur guðleg vera sem virðist jafnvel mikilvægari en Guð, eða í öllu falli jafn mikilvægur. Nákvæmlega hvernig Páll hefur séð fyrir sér samband Krists og Guðs er ekki ljóst, hann sér aldrei ástæðu til að fara út í þá sálma.

Um daginn endurlas ég tvær bækur uppi í skáp hjá mér, um samspil kristni og gyðingdóms á fyrstu öld. Spurningin var hvort til væru kristnir gyðingar eða gyðingar sem trúðu á krist - þ.e. hvort menn gátu verið gyðingar og kristnir á sama tíma. Páll segist auðvitað sjálfur vera gyðingur en var hann gyðingtrúar? Niðurstaða allra höfunda (þetta eru hvort tveggja safnrit) var að hvorki var til einsleit gyðingtrú né einsleit kristni á fyrstu öld. Í einföldustu mynd mátti skilgreina sem kristinn þann sem tilbað Krist, það gerði Páll augljóslega og það er líka grunnhugsun hjá öðrum postulafeðrum við aldamótin 100.

En það var langt í frá eining um hver þessi Kristur eiginlega væri - Páll er stundum grunsamlega gnostískur (enda óvinsæll hjá mörgum skríbentum 2. aldar) og hann virðist einnig undir sterkum áhrifum frá þeirri grískættuðu hugmynd sem ég nefndi í síðasta pósti, með þrískiptinguna Guð, Lógos og Sófía. Hann er hins vegar ekki í vafa um að Kristur sé guðlegur eins og ég nefndi áðan.

Það sama verður ekki sagt um guðspjöllin, þau fara í raun fram og til baka og eru flest með frekar lága kristólógíu og jafnel Jóhannes nær ekki að fullu pálskri kristólógíu. Svo virðist sem margir kristnir á fyrstu öld hafi hugsað svipað og tilhangendur Jóhannesar skírara (sem voru enn til á 2. öld), þ.e. þeir litu á Jesú sem spámann, helgan mann, en ekki guðlegan.

Enda gátu aríanistar sem ég nefndi síðast (og sem höfnðuðu að Jesú væri Guð) vitnað til miklu fleiri ritningarstaða máli sínu til stuðnings en andstæðingarnir, hinir síðarnefndu þurftu í raun að skapa ný hugtök og nýjan kenningagrunn. Mikilvægast í þessum nýja kenningargrunni var að tekinn var af allur vafi á því að Jesú væri Guð, með hinni nýju hugsun um hinn þríeina Guð. Þannig að ef þú talar um "Guðs orð" og átt við eitthvað sem haft er eftir Jesú þá hefðu flestir kristnir á fyrstu fjórum öldum kristninnar verið ósammála þér!

Annars er ekkert nýtt í því að prestar og jafnvel biskupar séu frekar lítið kristnir. "Nýja guðfræðin" svokallaða var vinsæl við lok 19. og byrjun 20. aldar og margir íhaldsamir klerkar töldu það einfaldlega ekki vera kristni. En ungu mennirnir, þar á meðal nokkrir sem síðar urðu biskupar, voru menntaðir í Kaupmannahöfn og gegnsýrðir þessari nýju hugsun. Að sumu leyti var stofnun guðfræðideildar á Íslandi mótsvar við nýguðfræðinni enda hefur íslenska guðfræðideildin alltaf verið mun íhaldssamari en sú danska (þær eru auðvitað orðnar margar, dönsku guðfræðideildirnar, og mis róttækar).

Brynjólfur Þorvarðsson, 19.4.2012 kl. 07:31

6 Smámynd: Óskar Sigurðsson

Sæll Brynjólfur. Þakka þér aftur fyrir fróðleikinn. Mjög athyglisverður og fræðandi og hefði ég bæði af því gagn og gaman að ræða við þig meira um þetta efni. Hvað heita þær bækur sem þú ert að tala um að þú hafir verið að lesa?

Orð Guðs! Þá á ég við Heilaga Ritningu og skýrskota til orða Páls. 2Tim. 3:16-17, " Sérhver ritning ER (ekki var eða verður heldur núna ) innblásin af Guði og ER nytsöm til fræðslu, umvöndunnar, leiðréttingar og menntunar í réttlæti. " Þetta er trúin, að Heilög Ritning er ALLT ráð Guðs um tíma og eilífð þ.e. til að guðsmaðurinn geti þekkt hin eina sanna Guð og þann sem Hann sendi Jesú Krist. Annað höfum við ekki. Nema þá Heilagan Anda sem er gjöf Guðs til mannsins, en þessum tveimur ber Alltaf saman Orð Guðs og Andi Guðs greinir aldrei á. Það er undur eitt hvað rit rötuðu inní Biblíuna. Þeim greinir aldrei á. Mörg púsl sem verður að raða rétt saman til að fá heildarmyndinna:)

Margir " kristnir " mér ósammála. Já, sannarlega og þeir eru það margir á okkar dögum einnig. Fáfræði kristinna manna hefur verið þeirra versti óvinur ásamt " mér finnst " guðfræðinni sem vex ásmeginn.

Talandi um Jóhannes skírara. Sá maður missti af vilja Guðs. Hann benti öðrum á Lambið Guðs og sagði " Þessi er sá sem ég talaði um fylgið honum " en skírarinn fór hvergi sjálfur heldur hélt áfram sinni þjónustu sem tók enda við komum Lambsins og safnaði lærisveinum. Jóhannes átti aðeins að undirbúa Ísraelsku þjóðina og greiða veginn fyrir Lambið. Þegar Jóhannesi var svo varpað í fangelsið eftir að hann hélt þjónustunni áfram og varð upptekinn af syndum Heródesar konungs, (sem var ekki hans þjónusta) sendi hann út lærisveina sína til að spyrja Jesú, " ert þú sá sem koma skal. " Hvað breyttist? Efinn sótti að honum í raunum hans því hann vildi frekar fá fylgjendur en að vera fylgjandi og hann missti höfuðið vegna þess að hann hafði frekar kosið að fylgja eigin höfði en Höfði Lambsins, Krists. 

Óskar Sigurðsson, 24.4.2012 kl. 15:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Óskar Sigurðsson

Höfundur

Óskar Sigurðsson
Óskar Sigurðsson

Óskar Sigurðsson er fæddur í Vestmannaeyjum 23.júlí 1971. Ég er búsettur í Vestmannaeyjum ásamt eiginkonu minni Gunnlaugu R Sigurðardóttur og börnunum Benjamín Elí, Sigurbjörgu Líf og Sigurði Dan.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...n_20_953829
  • ...n_20_953803
  • ...uga_born_20

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband